Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Í vikunni hækkuðu löng verðtryggð skuldabréf um 0,18% og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,93%.  Millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu einnig, eða um 0,18%.

S.l. föstudag fór fram útboð í tveimur flokkum óverðtryggðra ríkisbréfa, RIKB 16 1013 og RIKB 31 0124.  Markaðsaðilar sýndu RIKB 16 1013 lítinn áhuga en alls bárust 5 tilboð fyrir 500 milljónir króna  og var þeim öllum hafnað.

Meiri eftirspurn var eftir flokknum RIKB 31 0124 en í þann flokk bárust tilboð fyrir rúma 2 milljarða króna að nafnvirði. Tilboðum var tekið fyrir tæplega 1,3 milljarða króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 7,14%.


Innlend hlutabréf

Í síðustu viku hækkaði OMXI6ISK vísitalan um 3,26%.  5 félög hækkuðu og eitt stóð í stað. Mest hækkaði Marel (tæp 6%) en bréfin tóku að hækka eftir aðalfund félagsins sem var eftir lokun markaða síðasta miðvikudag. Velta með bréf í vísitölunni nam 1.269 milljónum króna, tæpur helmingur með Icelandair group.

Á aðalfundi Marels kom fram að árið 2011 byrjar mjög vel og hefur pantanabók Marels aldrei staðið betur.  Þá stefnir félagið á 20% - 40% arðgreiðslu af hagnaði á næstu árum.  Enginn arður verður hins vegar greiddur út fyrir árið 2010.

Icelandair sendi frá sér tilkynningu í vikunni í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um tölvupóst framkvæmdastjóra til starfsmanna um að hækkandi olíuverð muni hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins.  Þar kemur fram að Icelandair Group hf. hefur ekki breytt afkomuspá sinni sem gefin var út þann 14. febrúar 2011. Spáin gerði ráð fyrir EBITDA upp á 9,5 milljarða króna.

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways skilaði góðu uppgjöri fyrir árið 2010.  Hagnaður á árinu nam 12,3 milljónum DKK en félagið tapaði hins vegar 6,6 milljónum DKK á árinu 2009.

Á aðalfundi Össurar síðasta föstudag var samþykkt að greiða ekki út arð fyrir 2010.  Þá var samþykkt ákvörðun stjórnar um að afskrá félagið af Nasdaq OMX á Íslandi.  Þetta var samþykkt af hluthöfum sem fóru með 70,47% atkvæða þeirra sem þátt tóku í kosningunni gegn 29,53% atkvæða sem voru á móti tillögunni. Í framhaldi af niðurstöðu hluthafafundarins ákvað Kauphöll Íslands að færa hlutabréf Össurar á athugunarlista.

Í viðtali Fréttablaðsins við Pál Harðarsson, nýráðinn forstjóra Kauphallarinnar, kom fram að útlit sé fyrir að tvö fyrirtæki verði skráð á hlutabréfamarkað hér fyrri hluta árs og fleiri þegar líður á árið.  Fram kemur að margt bendi til þess að í ár verði mesta aukning í skráningum á markað frá árinu 1999.  Ef þetta verður raunin má reikna með að fjárfestingarkostum fjölgi vel á árinu og framundan sé líflegur hlutabréfamarkaður.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 131,00 4,80% -2,96% -9,97% -9,03% -7,75% -14,38%
FO-AIR 109,00 0,00% -2,68% -5,22% -8,40% -6,03% -18,05%
FO-ATLA 238,50 2,36% 11,45% 39,07% 59,00% 9,66% 55,88%
ICEAIR 4,58 2,69% 9,31% 27,22% 30,86% 45,40% 38,79%
MARL 124,00 5,98% 5,53% 24,00% 32,62% 24,00% 77,14%
OSSR 198,00 0,51% -1,00% -6,60% -4,81% -2,46% 18,21%
OMXI6ISK 1008,67 3,26% 2,25% 8,09% 6,76% 8,02% 15,07%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 4. mars 2011)

Erlend hlutabréf

Hlutabréfaverð lækkaði almennt í Evrópu í síðustu viku en hækkaði í Bandaríkjunum.  FTSE í Bretlandi lækkaði um 0,18% og DAX í Þýskalandi var nær óbreytt (-0,09%).  S&P 500 hækkaði hins vegar um 0,10% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 0,53%.

Ástæða fyrir hækkunum í Bandaríkjunum má meðal annars rekja til að atvinnuleysi í febrúar mældist lægra en spár sögðu til um og lækkaði úr 9,0% í 8,9%.  Ný störf í mánuðinum voru 192.000 og í vikunni sóttu 20.000 færri um atvinnuleysisbætur.

Fjárfestar í Evrópu og víðar hafa nú auknar áhyggjur af hækkandi olíuverði og óttast að hækkunin komi til með að hægja á hagvexti og leiða til vaxandi verðbólgu.  Auk þess hefur orðið vart við aukinn óróa í Grikklandi og matsfyrirtækið Moody‘s lækkaði lánshæfiseinkunn landsins úr Ba í B1, sem samsvarar þremur flokkum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1348,44 0,53% 0,67% 7,93% 20,00% 5,34% 15,21%
Þýskaland (DAX) 7178,90 -0,09% 5,69% 2,30% 17,08% 3,59% 21,87%
Bretland (FTSE) 5990,39 -0,18% -1,02% 3,12% 10,76% 1,52% 6,96%
Frakkland (CAC) 4020,21 -1,23% -1,88% 5,34% 10,16% 5,49% 2,64%
Bandaríkin (Dow Jones) 12169,88 0,33% 0,07% 7,14% 17,69% 5,12% 15,18%
Bandaríkin (Nasdaq) 2784,67 0,14% 0,02% 7,16% 26,07% 4,97% 19,70%
Bandaríkin (S&P 500) 1321,15 0,10% 0,16% 7,96% 21,00% 5,05% 16,02%
Japan (Nikkei) 10693,66 1,59% -0,82% 3,59% 13,86% 2,70% 1,31%
Samnorræn (VINX) 104,77 -0,07% -2,18% 2,29% 14,33% -1,13% 19,93%
Svíþjóð (OMXS30) 1112,38 -0,40% -2,17% -2,89% 6,40% -3,45% 11,79%
Noregur (OBX) 410,69 1,32% 1,71% 7,01% 22,77% 2,88% 22,70%
Finnland (OMXH25)  2568,40 0,18% -4,21% 0,51% 13,47% -1,59% 19,13%
Danmörk (OMXC20) 469,45 -0,25% 1,66% 6,41% 15,38% 2,79% 26,75%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 4. mars 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist eilítið í vikunni.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,12% og endaði í 216,23 stigum. Hefur krónan veikst um 3,8% frá áramótum.

Framhaldið veltur nokkuð á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um ICESAVE. Verði niðurstaðan sú að þjóðin hafni samningnum er viðbúið að seðlabankinn vilji auka á gjaldeyrissöfnun landsins. Hann mun þá líklega bregðast við með því að selja krónur og kaupa gjaldeyri á millibankamarkaði og þannig veikja krónuna.

Í framhaldinu ætti afgangur af viðskiptum að aukast sökum óhagstæðari innflutnings og hagstæðari útflutnings og bankinn gæti því aukið gjaldeyriskaup ennfrekar.  Á móti gæti það haft áhrif að skil á gjaldeyrisstekjum til landsins myndu versna og ásókn aðila í að koma fé úr landi gæti aukist en hvoru tveggja yrði drifið áfram af aukinni óvissu. 

Allavega er ljóst að verði samningunum hafnað munu stjórnvöld þurfa að endurskoða allar efnahagsáætlanir og líklega fara aðra leiðir til að koma framkvæmdum af stað.  Ef niðurstaðan verður sú að samningurinn verður samþykktur telja margir að draga munu verulega úr óvissu og lánamöguleikar innlendra aðila á erlendri grund opnast.

Ekki er víst að málið sé svo einfalt, enda margir aðilar illa brenndir af viðskiptum við Íslendinga og líklegast er að lánveitendur horfi fremur til stöðu viðkomandi aðila og þeirra verkefna sem í hlut eiga fremur en stöðu ríkissjóðs. Því til stuðnings má nefna endurfjármögnun Marels undir lok síðasta árs sem fékkst á mjög hagstæðum kjörum og eins risavaxna endurfjármögnun Bakkavarar á dögunum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 216,23 0,12% 1,04% 4,93% 4,33% 3,94% -6,15%

 (Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 4. mars 2011)

Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.