Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,81% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um  1,06%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hinsvegar lítillega í verði, eða um 0,09%.

Há verðbólga (1,18%) í mælingu Hagstofunnar í febrúar og væntingar um að verðbólga mælist einnig mikil í mars og jafnvel apríl veldur því að fjárfestar leita í verðtryggð bréf þessa dagana.

Á föstudaginn fór fram útboð á óverðtryggðum ríkisbréfum í flokknum RIKB 12 0824.  Fjórum tilboðum var tekið fyrir 2.550 mkr. að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 3,04%.

Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans var birt á miðvikudaginn og var ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum eins og flestir markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir. 

Helstu ástæður fyrir óbreyttum vöxtum eru fyrirhugaðar kosningar um Icesave og áætlun um afnám gjaldeyrishafta.  Að þessu sinni hafði ákvörðun Seðlabankans ekki teljandi áhrif á skuldabréfamarkaðinn.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,52%.  Mesta hækkun var hjá Össuri um 1,56%.  BankNordik lækkaði hins vegar mest, um 6,02%.

Velta með bréf á OMXI6ISK nam tæpum 16,3 milljörðum króna en langstærstur hluti þeirra veltu kom til vegna sölu Horns Fjárfestingarfélags sem er dótturfélag NBI á hlut sínum í Marel.

Hlutur Horns í Marel nam 13,77%.  Söluandvirði var rúmir 12,1 milljarður króna og var gengi viðskiptanna 120, en gengi Marels var 124 í lok vikunnar.

Eyrir Invest jók við hlut sinn í Marel  um tæp 3%  og á nú 34,7% hlut og er langstærsti einstaki hluthafinn.  Þá keypti NBI 8,26% hlut af dótturfélagi sínu.  Ekki kom fram hverjir keyptu þá tæpu 2,5% hluti sem eftir stóðu.

Í síðustu viku sögðum við frá þeirri óvenjulegu stöðu sem upp er komin varðandi viðskipti með hlutabréf Össurar hf og þeirri ákvörðun Kauphallarinnar að taka hlutabréf félagsins  til viðskipta. 

Þetta gerist þrátt fyrir að beiðni Össurar hf. um að taka hlutabréf félagsins úr viðskiptum hafi verið samþykkt af Kauphöll og jafnframt gefið út að  síðasti viðskiptadagur  í Kauphöll væri þann 25.mars.  

Kauphöllin er hér að beita fyrir sig samevrópsku regluverki um kauphallir sem innleitt var árið 2007 og heimilar að taka verðbréf til viðskipta án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum verðbréfamarkaði innan evrópska efnahagssvæðisins.  

Í tengslum við þessa stöðu hefur komið fram í viðtölum við forstjóra Kauphallar að Kauphöllin telji það grundvallarrétt hluthafa að geta bæði keypt og selt hlutabréfin. Ef Kauphöllin hefði ekki tekið bréfin til viðskipta á ný væri sú staða uppi að íslenskir hluthafar hefðu einungis getað selt en ekki keypt bréf í Össuri.

Kauphöllin tilkynnti jafnframt að ákveðið hafi verið að halda Össuri hf. (Össur) áfram í OMXI6 vísitölunni.   Verður OSSR auðkenninu skipt út fyrir OSSRu auðkennið þann 28. mars 2011.

OSSRu auðkennið mun koma inn í vísitöluna á dagslokaverði OSSR auðkennisins frá 25. mars 2011 og mun það gilda þar til nýtt verð hefur myndast á markaðnum. Fjöldi hluta Össurar í vísitölunni verður óbreyttur. Meðhöndlun Össurar í öðrum vísitölum verður einnig óbreytt.


 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 125,00 -6,02% 0,81% -10,71% -10,07% -11,97% -21,38%
FO-AIR 114,00 0,00% 2,70% -3,39% -4,20% -1,72% -13,64%
FO-ATLA 211,50 0,00% -6,00% -1,17% 32,19% -2,76% 29,75%
ICEAIR 4,49 0,22% -0,22% 37,73% 28,29% 42,54% 54,83%
MARL 124,00 -1,59% 5,53% 26,53% 33,19% 24,00% 59,38%
OSSR 195,00 1,56% -2,01% -4,88% -9,72% -3,94% 6,56%
OMXI6ISK 983,77 -0,52% 0,74% 6,21% 2,20% 5,36% 4,97%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 21. mars 2011)


Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu mikið í síðustu viku.  Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 2,12%, DAX í Þýskalandi um 4,54%, CAC í Frakklandi um 3,02% og S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 1,92%.

Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði um 10,22% sem kemur ekki á óvart eftir þær hörmungar sem gengið hafa yfir landið frá jarðskjálftanum mikla.  Í kjölfar hans hefur mikil umræða skapast um afleiðingar geislavirkni frá kjarnorkuverum eftir að kjarnorkuverið í Fukushima laskaðist illa. 

Mörg lönd eru háð framleiðslu á raforku með kjarnorku og sem dæmi er 75% af raforku Frakklands fengin með kjarnorku og þar eru 58 kjarnakljúfar.  Auk þess er landið stærsti útflytjandi raforku í heiminum.

Í Þýskalandi eru 17 kjarnakljúfar og hafa miklar deilur skapast um tilveru þeirra.  Nýlega tók ríkisstjórn landsins sér þrjá mánuði til að endurskoða þá ákvörðun að halda kjarnorkuverum landsins gangandi 12 árum lengur en áætlað var.

Hlutabréfaverð lækkaði einnig aðra vikuna í röð í Bandaríkjunum meðal annars vegna hættu á geislavirkni frá kjarnorkuverinu í Japan.  Bandaríkjamenn eru stærstu framleiðendur rafmagns með kjarnorku í heiminum og í landinu eru 104 kjarnakljúfar.


 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1287,13 -2,12% -5,23% 1,25% 10,06% 0,55% 8,09%
Þýskaland (DAX) 6664,40 -4,54% 5,69% -4,09% 8,17% -1,82% 13,47%
Bretland (FTSE) 5718,13 -1,90% -4,06% -3,04% 3,49% -2,19% 2,14%
Frakkland (CAC) 3810,22 -3,02% -5,78% -1,70% 2,02% 1,47% -1,65%
Bandaríkin (Dow Jones) 11858,52 -1,54% -4,30% 2,82% 10,20% 2,43% 10,39%
Bandaríkin (Nasdaq) 2643,67 -2,64% -6,71% -0,90% 12,53% -0,35% 11,34%
Bandaríkin (S&P 500) 1279,20 -1,92% -4,75% 1,96% 12,23% 1,71% 10,29%
Japan (Nikkei) 8962,67 -10,22% -15,20% -11,22% -4,12% -9,99% -14,95%
Samnorræn (VINX) 101,83 -1,25% -1,60% -2,89% 7,33% -2,67% 15,43%
Svíþjóð (OMXS30) 1091,37 -0,99% -0,87% -5,29% 1,00% -4,44% 8,24%
Noregur (OBX) 399,13 0,71% 0,77% 0,96% 14,87% 0,46% 20,10%
Finnland (OMXH25)  2518,91 -0,72% -2,00% -2,71% 7,09% -2,35% 15,94%
Danmörk (OMXC20) 461,97 0,00% -0,21% 2,33% 11,64% 1,87% 22,77%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 21. mars 2011)


Krónan

Gengi krónunnar styrktist í vikunni. Gengisvísitalan lækkaði um 0,51% og endaði í 215,80 stigum.

Bandaríkjadalur lækkaði í verði um 2,00%, breskt pund um 1,35%, japanskt jen um 1,08% en evra hækkaði í verði um 0,32%. Þessar miklu breytingar á undirliggjandi gjaldmiðlakrossum í vikunni má rekja til ástandsins í Japan og tengjast í raun ekki þróun mála hér á landi.

Dollar hefur verið undir þrýstingi vegna mikilla eigna Japana á bandarískum skuldabréfum og að sama skapi hefur flutningur fjármagns til Japans styrkt jenið. Undir lok vikunnar selda margir helstu seðlabankar heimsins jen til að slá á styrkingu þess og veiktist það verulega á föstudag.

Á föstudaginn 25. mars er von á skýrslu um áætlun um afnám gjaldeyrishafta og eru markaðsaðilar að bíða þess. Upphaflega átti að birta þessa skýrslu 11 .mars en því var seinkað og vonandi verður ekki um frekari seinkun að ráða.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 215,7951 -0,51% -0,10% 2,91% 3,28% 3,73% -5,39%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 21. mars 2011)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.