Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann. Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.
Innlend skuldabréf

Í vikunni lækkuðu löng verðtryggð skuldabréf um 0,23%. Millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,13% og millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,23%.

Á föstudag fór fram útboð á þriggja og sex mánaða víxlum hjá Lánasýslu ríkisins. Alls bárust tilboð fyrir 19,4 milljarða og var tilboðum tekið fyrir rúma 16 milljarða að nafnverði. Það má því segja að útboðið hafi tekist vel.

Þann 16. mars er næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands. Almennt er reiknað með að vöxtum verði haldið óbreyttum að þessu sinni og því ólíklegt að vaxtaákvörðunin sem slík hafi áhrif á markaðinn. Það verður hins vegar grant hlustað eftir því hvaða skilaboð koma frá Seðlabankanum og hugsanlegt að þau hreyfi markaðinn.

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,96%. Mest hækkuðu bréf Atlantic Airways, (4,59%) í litlum viðskiptum. Atlantic Petroleum lækkaði hins vegar mest, um 11,32%.

Velta með bréf á OMXI6ISK nam 404 milljónum króna, sem er talsvert minni velta en undanfarnar vikur. Mest velta var með bréf Icelandair, fyrir 198 milljónir króna.

Í vikunni skilaði BankNordik  uppgjöri fyrir árið 2010.  Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að bankinn hagnaðist um 416 milljónir DKKfyrir skatta  eða um 9 milljarðar ISK. 

Sambærileg tala fyrir árið 2009 nam um 135 milljónir DKK.  CAD hlutfall í lok árs var 17% en það þarf að lágmarki að vera 8%. Staða bankans er mjög góð í samanburði  við stöðu  danskra banka

Lagt hefur verið til  að greiddur verði arður upp á 40 milljónir  DKK fyrir síðasta ár sem samsvarar hagnaði bankans á 4F2010.  Stefnt er að því að aukaarður upp á 95 milljónir DKK (2 milljarðar  ISK.), sem byggist á uppsöfnuðum hagnaði áranna 2008 og 2009, komi til greiðslu árið 2012 ef aðstæður leyfa.  Miðað við þessar forsendur gæti arðgreiðsla bankans á næsta ári numið yfir 7% af núverandi markaðsverðmæti.

Össur kynnti í vikunni endurfjármögnun lánasamninga til 5 ára upp á 231 milljón USD. Vaxtakjörin eru mjög hagstæð eða 145 punktar ofan á LIBOR/EURIBOR.  Óhagstæðari lán verða greidd upp auk þess sem hluti lánsfjárhæðar eru hugsaðir fyrir rekstur og möguleg fyrirtækjakaup.  

Í tilkynningu frá Nasdaq OMX Iceland hf. kemur fram að beiðni Össurar hf. um að taka hlutabréf félagsins úr viðskiptum hafi verið samþykkt og muni síðasti viðskiptadagur vera þann 25.mars. 

Þá kemur fram að Össur hafi tilkynnt Kauphöllinni að ef Seðlabankinn muni ekki, í tilefni hækkunar hlutafjár i félaginu, veita viðkomandi hluthöfum undanþágu frá gjaldeyrisreglum til að afla sér erlends gjaldeyris til greiðslu á nýju hlutafé þá muni félagið taka við greiðslum í íslenskum krónum.

Í kjölfar framangreindrar tilkynningar kom önnur tilkynning frá Nasdaq OMX Iceland hf.(Kauphöllinni) þar sem fram kemur að kauphöllin hafi að eigin frumkvæði ákveðið að taka hlutabréf Össurar hf. til viðskipta þann 28.mars 2011. 

Ákvörðunin byggir á lögum um kauphallir sem heimilar að taka verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta er gert vegna þeirra gjaldeyrishafta sem eru við lýði á Íslandi. Vegna hafta er Kauphöllin eini skipulegi verðbréfamarkaðurinn þar sem íslenskir hluthafar geta keypt og selt hlutabréf í félaginu án takmarkana. Viðskipti með Össur munu lúta sömu reglum og eftirliti og önnur viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni. 

Össuri er þó ekki skylt að sinna upplýsingaskyldu gagnvart Kauphöllinni hér heima en sinnir hins vegar upplýsingaskyldu gagnvart NASDAQ OMX kauphöllinni í Kaupmannahöfn.


Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 133,00 1,53% -5,00% -6,34% -4,32% -6,34% -15,82%
FO-AIR 114,00 4,59% 1,79% -3,39% -4,20% -1,72% -14,29%
FO-ATLA 211,50 -11,32% -3,86% -1,17% 36,01% -2,76% 28,18%
ICEAIR 4,48 -2,18% -2,61% 28,00% 28,00% 42,22% 49,33%
MARL 126,00 1,62% 8,15% 26,00% 35,05% 26,00% 77,72%
OSSR 192,00 -3,03% -3,03% -9,43% -12,13% -5,42% 7,56%
OMXI6ISK 988,92 -1,96% 0,49% 4,11% 2,68% 5,91% 8,83%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 14. mars 2011)

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu töluvert í liðinni viku. Heimsvísitalan lækkaði um 2,47%, Dax vísitalan í Þýskalandi lækkaði um 2,75%, Dow Jones lækkaði um 1,03% og Nikkei lækkaði um 4,11%.

Jarðskjálftinn í Japan hafði slæm áhrif á hlutabréfaverð í heiminum og fara þar verst endurtryggingarfyrirtækin. Talið er að efnahagskostnaður Japans vegna jarðskjálftans sé um 11.500 milljarðar ISK þó erfitt sé að meta það á þessari stundu. Japansbanki tilkynnti að bankinn ætli að veita 183 milljörðum USD (15 trilljónir jena) til þess að styðja við hagkerfið og endurreisn atvinnulífsins.

Matsfyrirtækið Moody's lækkaði lánshæfismat á Grikkland og Spán í vikunni, Moody’s telur að stjórnvöld á Spáni hafi ekki styrk til þess að koma fjármálakerfi landsins á rétta braut. Mikið atvinnuleysi er í þessum löndum, 20% atvinnuleysi er á Spáni og 14,8% í Grikkalandi. 

Olíu- og eldsneytisverð lækkaði í vikunni eftir miklar hækkanir undanfarnar vikur. Rekja má lækkanir til þess að olíuráðherra Sádí-Arabíu tilkynnti að landið geti framleitt 3,5 milljónir tunna í viðbót við þær 9 milljónir tunna sem þeir framleiða dag hvern.

Þess má geta að áætlað er að framleiðsla í Líbíu hafi dregist saman um 1 milljón tunna á dag sem hefur haft meiri áhrif á markaðinn en tilefni er til. Árið 2010 var meðalframleiðsla á dag í heiminum 87,3 milljónir tunna.  


Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1315,07 -2,47% -2,21% 3,74% 13,55% 2,73% 10,75%
Þýskaland (DAX) 6981,49 -2,75% 5,69% -1,95% 9,79% -0,35% 15,89%
Bretland (FTSE) 5828,67 -2,70% -4,02% -1,27% 4,47% -1,42% 3,39%
Frakkland (CAC) 3928,68 -2,28% -4,30% 0,45% 3,87% 3,04% -0,18%
Bandaríkin (Dow Jones) 12044,40 -1,03% -1,82% 4,95% 14,42% 4,03% 13,36%
Bandaríkin (Nasdaq) 2715,61 -2,48% -3,61% 3,34% 18,60% 2,36% 14,70%
Bandaríkin (S&P 500) 1304,28 -1,28% -2,10% 5,05% 16,34% 3,71% 13,42%
Japan (Nikkei) 10254,43 -4,11% -10,30% -6,75% 3,45% -5,95% -10,52%
Samnorræn (VINX) 103,16 -1,53% -4,22% -0,90% 7,22% -3,62% 15,00%
Svíþjóð (OMXS30) 1102,22 -0,91% -3,44% -5,26% 1,16% -5,24% 7,55%
Noregur (OBX) 396,30 -3,50% -3,26% 3,27% 14,51% -1,36% 17,15%
Finnland (OMXH25)  2537,25 -1,19% -5,62% -1,80% 6,57% -4,32% 12,35%
Danmörk (OMXC20) 461,95 -1,59% -2,50% 2,23% 9,70% 0,57% 23,59%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 14. mars 2011)

Krónan

Gengi krónunnar veiktist í vikunni. Gengisvísitalan hækkaði um 0,30% og endaði í 216,89 stigum. Hefur krónan veikst um 4,08% frá áramótum. Af helstu myntum, þá hefur krónan veikst um 0,60% gagnvart japönsku jeni, 1,69% gagnvart bandaríkjadal, 4,54% gagnvart evru og 4,67% gagnvart sterlingspundi. 

Næstkomandi miðvikudag er vaxtaákvörðunardagur og telja ýmsir aðilar að vaxtalækkunarferlinu sé lokið. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá því í febrúar kvað við annan tón en verið hefur og telur nefndin að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið, vextir eru í sögulegu lágmarki og að stefnt væri að frekara afnámi gjaldeyrishafta.

Það sem hefur gerst síðan þá er að krónan hefur haldið áfram að gefa eftir og olía hækkað verulega í verði. Þessar hækkanir hafa skilað sér að hluta út í verðlagið og ljóst afgangurinn mun koma inn í verðlagið á næstu vikum og mánuðum.

Það sem hinsvegar er áhugaverðast er hvernig staðið verður að afnámi gjaldeyrishaftanna, en til stóð að birta áætlun um það s.l. föstudag, en því var frestað um tvær vikur, til 25. mars.

Óháð öllum aðgerðum eða aðferðafræði við afnám haftanna þá mun skipta mjög miklu máli að fjárfestar og fjármagnseigendur hafi traust á stjórnvöldum og því umhverfi sem þeir muni búa við á Íslandi á komandi tíð.

Í því sambandi má benda á að þættir eins og hvort vaxtastig sé lítið eitt hærra eða lægra skiptir líkast til litlu máli ef valið stendur milli þess að fjárfesta þar sem mikil óvissa er fyrir hendi s.s. stjórnmálaleg, skattaleg eða eignarréttarleg eins og nú er hér á landi eða á svæðum þar sem leikreglur er stöðugri, gjaldmiðillinn viðurkenndur og umgjörð öll traustari og stöðugri.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 216,89 0,30% 0,88% 4,23% 4,44% 4,26% -5,88%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 14. mars 2011)


Fyrirvari 

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.