Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,86% og millilöng verðtryggð skuldabréf um  1,23%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hinsvegar lítillega í verði, eða um 0,02%. Há verðbólga í síðustu tveimur mælingum Hagstofunnar 1,18% í febrúar og 0,95% í mars veldur því að fjárfestar leita í verðtryggð bréf.

Frá áramótum hafa löng verðtryggð skuldabréf hækkað um 4,98% og millilöng verðtryggð skuldabréf um 6,24%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf eru óbreytt frá áramótum en löng óverðtryggð skuldabréf hafa lækkað um rúm 3%.

Verulegur munur er því á ávöxtun verðtryggðra bréfa annars vegar og óverðtryggðra bréfa hins vegar það sem af er þessu ári.

Á fimmtudaginn birtu Lánamál ríkisins útgáfuáætlun annars ársfjórðungs. Áætluð útgáfa er 10-26 milljarða króna og verða boðin út bréf í flokkunum RIKB 12 0824, RIKB 16 1013, RIKB 31 0124 og RIKS 21 0414.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,22% og endaði vikuna í 1.001 stigi.  Mesta hækkun var hjá BankNordik, rúm 4,8%.

Bankinn tilkynnti í vikunni um greiðslu inn á tvo óskráða skuldabréfaflokka sem eru á gjalddaga 2012 og eru ekki með ábyrgð ríkisins.  Er þetta gert til að draga úr ytri fjármögnunaráhættu bankans en lausafjárstaða BankNordik hefur verið góð.

Annar flokkurinn var greiddur upp en hann var upp á 250 milljónir DKK og inn á hinn flokkinn voru greiddar 150 milljónir DKK og eftir standa 100 milljónir DKK.

Össur var eina félagið í visítölunni sem lækkaði, og nam lækkunin 1,56%.

Velta með bréf á OMXI6ISK var svipuð og í síðustu viku eða 603 milljónir króna.  Mest velta var með bréf Icelandair fyrir um 334 milljónir króna.

Á Kauphallardegi Arion banka sem haldinn var í vikunni kom fram í ávarpi forstjóra Kauphallarinnar mikil jákvæðni og bjartsýni um fjölgun félaga í Kauphöllinni og kynnti hann sínar hugmyndir um fjölda fyrirtækja næstu ára.

Samkvæmt hans sýn ættu skráð félög í Kauphöll að vera orðin 43 árið 2014.  Það er vel ef tekst að fjölga fjárfestingarkostum þetta mikið á næstu árum en í dag eru skráð félög 11 og þar af 3 frá Færeyjum.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 130,00 4,84% -0,38% -8,45% -7,14% -8,45% -18,75%
FO-AIR 114,00 0,00% 4,59% -1,72% -4,20% -1,72% -13,64%
FO-ATLA 215,50 0,47% -9,64% -0,92% 34,27% -0,92% 35,11%
ICEAIR 4,52 2,26% -1,09% 43,49% 29,14% 43,49% 50,67%
MARL 128,50 2,39% 4,90% 29,54% 41,21% 28,50% 63,69%
OSSRu 193,00 -1,53% -2,28% -4,93% -11,06% -4,93% 2,93%
OMXI6ISK 1000,80 1,22% -0,63% 8,73% 7,91% 7,18% 5,88%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 4. apríl 2011)


Erlend hlutabréf

Töluverð hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 1,18%,  DAX í Þýskalandi um 3,36% og Nikkei í Japan um 1,81%.

S&P 500 hlutabréfavísitalan hækkaði einnig eða um 1,42% og hefur nú hækkað um tæp 6% frá áramótum.  Ástæðan var meðal annars sú að atvinnuleysi reyndist minna í Bandaríkjunum í mars en spár gerðu ráð fyrir og lækkaði úr 8,9% í 8,8%.

Í mars fjölgaði störfum um 216.000 en spá hagfræðinga hjá Bloomberg reiknaði með fjölgun um 190.000.

Í Evrópu var Írland áberandi fréttaefni í vikunni en útlit er fyrir að allir bankar landsins verði þjóðnýttir.  Eftir þjóðnýtinguna er fyrirhugað að fækka bönkunum í tvo.  Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að þjóðnýta bankana virðist þó fara vel í fjárfesta en Irish Overall Index hlutabréfavísitala Íra hækkaði um 2,34% á föstudaginn.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1341,45 1,18% -0,52% 4,05% 14,13% 4,80% 10,61%
Þýskaland (DAX) 7179,81 3,36% 5,69% 3,11% 17,25% 4,02% 15,34%
Bretland (FTSE) 6009,92 1,85% 0,52% 0,13% 8,38% 2,06% 4,81%
Frakkland (CAC) 4054,76 2,07% 0,93% 3,62% 11,18% 6,65% 0,58%
Bandaríkin (Dow Jones) 12376,72 1,28% 1,70% 5,86% 15,12% 6,90% 13,27%
Bandaríkin (Nasdaq) 2789,60 1,70% 0,18% 4,04% 18,98% 5,15% 16,11%
Bandaríkin (S&P 500) 1332,41 1,42% 0,85% 4,90% 17,18% 5,95% 13,10%
Japan (Nikkei) 9708,39 1,81% -9,12% -6,53% 3,60% -4,99% -13,89%
Samnorræn (VINX) 106,38 2,05% 1,47% -1,39% 12,89% 0,06% 16,32%
Svíþjóð (OMXS30) 1145,60 1,64% 3,30% -1,44% 7,52% -0,56% 10,82%
Noregur (OBX) 414,51 1,36% 1,38% 4,11% 19,12% 3,98% 21,52%
Finnland (OMXH25) 2659,15 1,60% 3,63% -0,11% 10,90% 1,26% 16,66%
Danmörk (OMXC20) 469,16 2,03% -0,20% 0,11% 14,73% 2,39% 22,31%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 4. apríl 2011)

 

Krónan

Gengi krónunnar gaf aðeins eftir í vikunni. Gengisvísitalan hækkaði um 0,12% og endaði í 216,22 stigum. Lágvaxtamyntir lækkuðu mikið í verði, japanskt jen um 2,72% og svissneskur franki um 0,81%. Mest hækkaði kanadadalur, um 0,90% og norsk króna um 0,87%.

Skuldatryggingaálag Ríkissjóðs Íslands til fimm ára stendur í 220 punktum og hefur lækkað úr 264 punktum frá áramótum. Undanfarnar vikur hefur þróunin verði þveröfug hjá þeim ríkjum Evrópu sem standa hvað veikust.

Ef horft er til ávöxtunarkröfu skuldabréfs Ríkissjóðs Íslands, sem er á gjalddaga í desember næstkomandi, er krafan um 5,7%. Ljóst er að engin hætta er á því að skuldabréfið fáist ekki greitt, sé horft til gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og því nokkuð sérstakt að krafan sé ekki lægri.

Nokkuð mikill munur er á kaup- og sölugengi, besta kauptilboð er á um 6,5% en besta söluboð á 4,9% ávöxtunarkröfu.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 216,22 0,12% -0,15% 3,22% 4,11% 3,93% -5,80%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 4. apríl 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.